top of page
-
Hvað er það sem kallast "doping" skv. lyfjareglunum?Brot á lyfjareglunum kallast á ensku "doping", en það á ekki einungis við um að nota bönnuð efni eða aðferðir á bannlista World Anti-Doping Agency (WADA). Ef bannað efni finnst í sýni íþróttamanns getur það verið brot á einni lyfjareglu, en það eru 10 aðrar lyfjareglur sem aðilar í íþróttahreyfingunni þurfa að vera meðvitaðir um.
-
Hver eru þessi 11 atriði sem varða við brot á lyfjareglum (Anti-Doping Rule Violation eða ADRV)?Það eru 11 atriði sem fela í sér brot á lyfjareglum (ADRV): 1. Að bannað efni, eða önnur efni sem gefa til kynna notkun bannaðs efnis, finnist í lífsýni frá íþróttamanni 2. Að nota eða reyna að nota bannað efni eða aðferð 3. Að neita að mæta til löglega boðaðs lyfjaeftirlits 4. Að veita ekki réttar upplýsingar um aðsetur sitt og vera því ekki tiltækur fyrir löglega boðað lyfjaeftirlit 5. Að breyta eða reyna að breyta niðurstöðum lyfjaeftirlits 6. Að eiga eða hafa undir höndum bannað efni 7. Að flytja inn, kaupa, selja, afhenda eða varðveita bannað efni 8. Að gefa eða reyna að gefa íþróttamanni inn bannað efni, eða aðstoða við, hvetja til, auðvelda, styðja, hylma yfir eða gerast á annan hátt samsekur við athæfi sem felur í sér lyfjamisnotkun eða tilraun til lyfjamisnotkunar 9. Samsekt eða tilraun til samsektar 10. Bannað samband 11. Hefndaraðgerðir eða draga úr kjarki annars aðila til að veita upplýsingar um brot
-
Geta íþróttamenn verið prófaðir hvenær sem er?Já. Allir íþróttamenn sem heyra undir lyfjareglurnar geta verið prófaðir hvar sem er og hvenær sem er, í og utan keppni, án fyrirvara.
-
Hvað gerist í lyfjaprófi?Íþróttamaður er boðaður af fullgildum lyfjaeftirlitsaðila og er leiddur í gegnum lyfjaprófunarferlið. Ferlið hefst með boðun og lýkur með því að sýnið er sent í greiningu á WADA vottaða rannsóknarstofu. Myndbandið hér að neðan sýnir lyfjaprófunarferlið.
-
Mega íþróttamenn nota lyf af læknisfræðilegum ástæðum?Já, en bara ef þau eru ekki á bannlistanum, eða ef undanþága í lækningaskyni (Therapeutic Use Exemption) hefur ekki verið veitt.
-
Hvað er undanþága?Undanþága (Therapeutic Use Exemption) veitir íþróttamanni leyfi til þess að nota efni eða aðferð á bannlistanum af læknisfræðilegum ástæðum. Dæmi um slík lyf eru lyf við sykursýki, bólgueyðandi sterar eða ADHD lyf. Hægt er að sækja um undanþágur í gegnum heimasíðu lyfjaeftirlitsins.
-
Hvernig geta íþróttamenn vitað hvort að lyf séu bönnuð?Gott er að skoða og þekkja bannlista WADA en einnig er hægt að fletta upp öllum lyfjavirkjum efnum og sumum lyfjaheitum í alþjóðlegum gagnagrunni lyfjaeftirlits sem heitir Global DRO. Global DRO Bannlisti WADA
-
Eru fæðubótarefni örugg fyrir íþróttamenn?Engin fæðubótarefni eru alveg 100% áhættulaus til notkunar fyrir íþróttafólk. Jafnvel "náttúruleg" eða "lögleg" fæðubótarefni gætu verið menguð af bönnuðum efnum, sem geta annaðhvort verið sett vísvitandi í vörurnar af óheiðarlegum framleiðendum eða smitast í framleiðsluferlinu. Einnig eru sumar fæðubótarvörur sem innihalda efni á bannlista og eru tekin fram á innihaldslýsingunni. Til þess að minnka líkurnar á því að brjóta lyfjareglur eftir notkun fæðubótarefna er hægt að: Nota einungis lotuprófuð og vottuð fæðubótarefni (t.d. vottað af Informed Sport eða NSF) Skrá niður notkunina (geyma kaupnótur og umbúðir og einnig smá af vörunni) Átta sig á að þeir eru algjörlega ábyrgir (e. strictly liable) fyrir því hvað þeir setja í líkama sinn Horfa með gagnrýnum augum á vörur sem auglýsa sérstaklega aukna orku, aukinn vöðvamassa eða þyngdartap. Hægt er að fletta upp efnum á innihaldslýsingu á www.globaldro.com Einnig er hægt er að skoða áhættulista bandaríska lyfjaeftirlitsins yfir fæðubótarvörur hér: https://www.usada.org/athletes/substances/supplement-connect/high-risk-list/ Athugið að ekkert lyfjaeftirlit vottar neinar fæðubótarvörur.
-
Af hverju getið þið ekki sagt mér hvort að fæðubótarefnið sem ég nota sé í lagi?Ólíkt lyfjum, þá sæta fæðubótarefni ekki sérstöku eftirliti lyfja- eða matvæla- eða annarra eftirlitsstofnanna. Það er því líklega engin trygging fyrir því að fæðubótarvaran sem þú neytir sé það sem þú heldur að hún sé. Því miður er ekki óalgengt að fæðubótarvörur séu illa merktar eða hafi villandi innihaldslýsingar. Það getur annars vegar lýst sér í því að efni í fæðubótarvörunni (og í innihaldslýsingu) séu á bannlista, og hins vegar geta efni leynst í vörunni án þess að það komi fram í innihaldsslýsingu. Þá er talað um mengaða vöru. Slíkt er gert í þeim tilgangi að selja meira af vörunni vegna árangursbætandi áhrifa hennar. Þetta á við um fæðubótarvörur á heimsvísu. Framleiðendur og dreifingaraðilar fæðubótarvara eru oft stóryrtir um gagnsemi varanna og nota markaðsaðferðir og auglýsingar sem engar vísindalegar sannanir liggja á bakvið. Lyfjaeftirlit Íslands og önnur lyfjaeftirlit í íþróttum votta ekki sérstaklega fæðubótarefni né aðrar vörur og það er því á ábyrgð neytandans að neyta ekki vara sem innihalda efni á bannlista WADA.
-
Hversu oft er bannlistinn uppfærður?Bannlistinn er uppfærður árlega, birtur í október og tekur gildi 1. janúar ár hvert. Bannlistinn er listi yfir efni og aðferðir sem eru bannaðar í íþróttum. Finna má nýjustu útgáfuna af bannlistanum og helstu breytingar milli ára með því að smella hér
-
Hvað gerist ef íþróttamaður reynist jákvæður á lyfjaprófi?Ef íþróttamaður greinist jákvæður á lyfjaprófi, eða brýtur aðrar lyfjareglur gæti hann hlotið allt frá áminningu upp í 4 (fjögurra) ára óhlutgengi, eftir sektarstigi og alvarleika brotsins. Óhlutgengi þýðir bann frá öllum íþróttum.
-
Hver eru réttindi íþróttafólks í lyfjareglunum?Réttur til jafnræðis og án mismununar Réttur til jafnræðis og sanngirni af hálfu lyfjaeftirlits m.t.t. lyfjaprófana Réttur til læknisfræðilegrar meðferðar og verndunar á heilsu Réttur á sanngjarnri málsmeðferð Réttur til þess að lyfjaeftirlit sæti ábyrgð Réttur til að uppljóstrarar séu verndaðir Réttur á fræðslu um lyfjamál Réttur á vernd persónuupplýsinga Réttur á sanngirnisbótum Verndaðir einstaklingar njóti sérréttinda Réttur á meðan lyfjaprófunarferli stendur Réttur til þess að láta greina B-sýni úr lyfjaprófi Lesa má nánar um réttindi íþróttafólks með því að smella hér
-
Hverjar eru skyldur íþróttamanna undir reglunum?Þekkja og fara eftir lyfjareglunum Að vera tiltækir í lyfjapróf hvenær sem er Að bera ábyrgð á því hvað fer inn í líkama þeirra Að upplýsa heilbrigðisstarfsfólk um skyldur þeirra til að nota ekki bönnuð efni eða aðferðir og að öll læknismeðferð brjóti ekki lyfjareglurnar Að upplýsa sína lyfjaeftirlitsstofnum um alla úrskurði í lyfjamálum af hálfu aðila sem heyra ekki undir Alþjóðalyfjareglurnar Að vinna með lyfjeftirliti við rannsókn mála Að gefa upp upplýsingar um aðstoðarfólk sitt ef beðið er um slíkt af hálfu lyfjaeftirlits
-
Geta íþróttamenn áfrýjað úrskurðum og dómum?Já. Áfrýjanir geta verið sendar til Áfrýjunardómstóls ÍSÍ, eða CAS (Court of Artbitration in Sport) eftir því á hvaða stigi málið er eða eftir umfangi.
-
Fyrir hverja eru lyfjareglurnar?Lyfjareglurnar gilda um alla íþróttamenn og aðstoðarfólk þeirra. Einnig gilda þær um stjórnarmenn, starfsmenn og aðra fulltrúa sem starfa innan íþróttahreyfingarinnar. Þessir aðilar undirgangast þó ekki lyfjapróf og gætu því ekki átt yfir höfði sér ákæru vegna brota á reglum um viðurvist bannaðs efnis í lífssýni. Þessir aðilar gætu þó verið sóttir til saka fyrir brot á reglum 2.5, 2.7, 2.8, 2.9, 2.10 og 2.11 (sjá atriði 5, 7, 8, 9, 10 og 11 undir "almennt um lyfjareglurnar")
-
Gilda lyfjareglurnar einnig um þjálfara og starfsfólk?Já. Þjálfarar og starfsfólk, t.d. læknar og sjúkraþjálfarar geta verið dæmdir í bann vegna eftirfarandi lyfjareglna: 2.5. Að breyta eða reyna að breyta niðurstöðum lyfjaeftirlits 2.7. Að flytja inn, kaupa, selja, afhenda eða varðveita bannað efni 2.8. Að gefa eða reyna að gefa íþróttamanni inn bannað efni, eða aðstoða við, hvetja til, auðvelda, styðja, hylma yfir eða gerast á annan hátt samsekur við athæfi sem felur í sér lyfjamisnotkun eða tilraun til lyfjamisnotkunar 2.9. Samsekt eða tilraun til samsektar 2.10. Bannað samband 2.11. Hefndaraðgerðir eða draga úr kjarki annars aðila til að veita upplýsingar um brot
bottom of page